Njarðvík mætir Tindastól í Ljónagryfjunni föstudaginn 1. mars kl. 19:00. Stigin sem eru í boði eru mikilvæg enda getur kvennaliðið enn komist ofar í töfluna. Heimasíðan ræddi við Júlíu Scheving fyrirliða liðsins en hún sagði hópinn ungann en viljugan til að læra. Við hvetjum alla Njarðvíkinga til að fjölmenna í Ljónagryfjuna annað kvöld.
Ungt og efnilegt lið á ferðinni sem er komið með miðann í úrslitakeppnina. Hvernig metur þú tímabilið fram að þessu?
Mér finnst okkur búið að ganga vel. Okkur hefur vissulega vantað stöðugleika en hann kemur með aukinni reynslu. Við erum með ungan og sprækan hóp sem er viljugur til að læra og við erum að byggja á því. Við höfum bætt okkur mikið frá því í haust og höfum verið að leggja áherslu á ákveðna þætti og tekist vel og þar erum við að mæla okkar árangur. Markmiðið var líka að komast í úrslitakeppni og alveg geggjað að ná því!
Enn er möguleiki á að fara ofar í töfluna en til þess þarf helst að vinna alla leiki, einbeitingin góð í hópnum?
Já algjörlega, góð stemming fyrir framhaldinu hjá bæði leikmönnum og þjálfurum. Við eigum harma að hefna á móti Tindastól eftir svekkjandi tap í framlengingu fyrir Norðan og svo eigum við topplið Fjölnis í síðasta leik deildarinnar. Það er möguleiki að fara ofar en til þess þurfum við að vinna báða og líka treysta á að Þór AK tapi sínum leikjum.
Hvernig líst þér á úrslitakeppnina og möguleika Njarðvíkurliðsins í henni?
Mér líst mjög vel á úrslitakeppnina sem er framundan. Eins og staðan er núna erum við að mæta toppliði Fjölnis. Þetta verður erfiður slagur en ef að við komum beittar og vel skipulagðar til leiks munum við koma þeim á óvart. Ég hef fulla trú á mínu liði og hlakka til að fara inn í úrslitakeppni með þessum flotta hóp. Við erum peppaðar fyrir framhaldinu og vonum að sem flestir komi og styðji okkur í baráttunni