Þá er komið að því, úrslitakeppnin er að hefjast og fyrsti leikur hjá Njarðvík í 8-liða úrslitum Subway-deildar kvenna er í kvöld gegn Val kl. 19.30 í Ljónagryfjunni.
Í úrslitakeppninni þarf að vinna þrjá leiki til að komast áfram en Njarðvík hafnaði í 3. sæti í A-hluta eftir að deildarkeppninni var skipt upp og Valur hafnaði í 1. sæti í B-hluta (6. sæti).
Úrslitakeppnin í ár er eins og margir vita með nýju fyrirkomulagi þar sem 8-lið taka þátt eftir að hafa leikið deildarkeppni sem síðan var skipt upp í A og B hluta og úr þeim tveimur hlutum raðað inn í úrslitakeppni.
Njarðvík tók fyrst þátt í úrslitakeppni úrvalsdeildar kvenna árið 2003 og hefur síðan þá tvívegis orðið Íslandsmeistari árin 2012 og 2022. Valur tók fyrst þátt í úrslitakeppninni 2009 og hefur þrisvar orðið meistari 2019, 2021 og 2023 og þar af leiðandi eitt heitasta lið landsins síðustu tímabil.
Nú málum við stúkuna græna og styðjum okkar konur í baráttunni gegn Val.
#ÁframNjarðvík