Úrslitin hefjast í kvöld: Baráttan um bæinn!Prenta

Körfubolti

Þá hefst það! Úrslitaserían í Subway-deild kvenna hefst í kvöld þegar Njarðvík og Keflavík leggja af stað inn í baráttuna um Reykjanesbæ og sjálfan Íslandsmeistaratitilinn. Eitt sem er víst og það er að loknu einvígi mun sá stóri lenda í Reykjanesbæ og með Grænu hjörðina að vopni þá eru okkur allir vegir færir!

Fyrsti leikur seríunnar er í kvöld fimmtudaginn 16. maí og hefst kl. 20:15 í Blue-Höllinni. Leikurinn verður í beinni útsendingu hjá Stöð 2 Sport og miðasala á leikinn fer fram í Stubbur-app. Keflvíkingar verða með FanZone frá 18:15 þar sem borgarar og drykkir verða til sölu og hleypt verður inn í sal kl. 19:15.

Þetta er í fjórða sinn sem Njarðvíkurkonur taka þátt í úrslitum Íslandsmótsins. Í fyrstu ferð mætti liðið Keflavik og lá þar 3-0 í úrslitaseríunni. Árið á eftir eða 2012 mættust Njarðvík og Haukar þar sem okkar konur unnu seríuna 3-1 og urðu Íslandsmeistarar í fyrsta sinn í sögu klúbbsins. Þriðja ferðin í úrslit var svo árið 2022 þegar Njarðvík lagði Hauka 2-3 í eftirminnilegum oddaleik í Ólafssal og varð meistari í annað sinn í sögu félagsins. Nú er komið að fjórðu ferðinni í úrslit þar sem við mætum Keflavik í annað sinn í sögunni en Keflavik og Haukar eru þá einu félögin sem Njarðvík hefur mætt í úrslitum úrvalsdeildar kvenna.

Áfram Njarðvík!