Vertíðarlok og hyllir í nýjan heimavöllPrenta

Körfubolti

Þá er leiktíðinni formlega lokið hjá okkur Njarðvíkingum í Subway-deildum karla og kvenna. Karlaliðið hafnaði í 3.-4. sæti eftir tap í oddaleik gegn Val og kvennaliðið landaði silfurverðlaunum eftir tap í úrslitum gegn Keflavík. Óskum Keflavík til hamingju með árangurinn sinn í vetur og megi betra liðið sigra í úrslitaviðureign Vals og Grindavíkur.

Eins og áður hefur komið fram er það ljóst að Benedikt Guðmundsson stígur frá borði við þjálfun karlaliðsins sem og aðstoðarmaður hans Daníel Guðni. Á næstunni er tíðinda að vænta af frekari ráðningum í félaginu og munum við greina frá því hér von bráðar.

Í Njarðvík stóðu vonir alltaf til að tímabilinu sem er að ljúka gæti séð leiki í Stapaskóla en það hafðist því miður ekki. Þannig hefur þessi kveðjustund við Ljónagryfjuna dregist á langinn enda á hún stóran sess í hjarta okkar allra þó vissulega sé hún að verða barn síns tíma miðað við allan þann framgang sem orðið hefur í íslenskum körfuknattleik. Bæjaryfirvöld hafa tjáð stjórn að síðsumars verði Stapaskóli tekinn í notkun og því hefst núna mikil skipulagsvinna við að flytja á nýjan stað. Við erum spennt fyrir framtíðinni og þeim breytingum sem framundan eru.

Árangur karlaliðs Njarðvíkur kom mörgum sérfræðingnum á óvart í vetur en Njarðvíkurliðið sá vitaskuld sínar breytingar á hópnum. Meiðsli settu strik í reikninginn og þeir Veigar Páll og Þorvaldur Orri komu inn í hópinn með seinni skipunum sem og Dwayne Lautier. Þriðja árið í röð fór Benedikt því með liðið í undanúrslit en hann kveður félagið með m.a. deildarmeistara- og bikarmeistaratitil í farteskinu. Kvennamegin voru spámiðlar bjartari fyrir genginu og Ljónynjurnar sviku engan. Eitt af sterkustu liðum deildarinnar í vetur og spiluðu um þann stóra í þremur hörku leikjum gegn Keflavík.

En nú þegar sumarið er framundan þá er ekki úr vegi að þakka ykkur Njarðvíkingar fyrir samfylgdina á tímabilinu. Stuðningsmenn, samstarfsaðilar, sjálfboðaliðar og starfsfólk. Eins og maðurinn sagði: „Það þarf heilt þorp” og eru það orð að sönnu.

Innan tíðar komum við saman á nýjum heimavelli okkar Njarðvíkinga sem verður mikið og skemmtilegt verkefni. Við vitum að græna ljónahjörðin á eftir að koma sér vel fyrir í Stapaskóla og hver veit nema þessi heimavöllur þurfi á nýju nafni að halda fyrir komandi vertíðar.

Með kærri þökk fyrir leiktíðina.
Fyrir fánann og UMFN
Áfram Njarðvík

Stjórn og starfsfólk Körfuknattleiksdeildar UMFN