Vilborg og Maciej körfuknattleiksfólk UMFN 2018Prenta

Körfubolti

Stjórn KKD UMFN hefur valið Vilborgu Jónsdóttur og Maciej Baginski körfuknattleiksfólk Njarðvíkur árið 2018. Bæði hafa þau verið burðarásar í meistaraflokkum Njarðvíkur á yfirstandandi leiktíð og eru öflugar fyrirmyndir komandi kynslóða í Njarðvík.

Þrátt fyrir ungan aldur hefur Vilborg Jónsdóttir skipað sér í sess á meðal sterkustu leikmanna í 1. deild kvenna og verið burðarás í ungu Njarðvíkurliði þetta tímabilið. Vilborg er með 15,1 stig, 6,9 fráköst og 4,0 stoðsendingar að meðaltali í leik á yfirstandandi leiktíð og Njarðvíkurliðið í 2. sæti 1. deildar í jólafríinu. Þá hefur Vilborg verið í yngri landsliðum Íslands og lék með U15 ára landsliði Íslands á árinu. Vilborg hefur verið valin í U16 ára landsliðshópinn sem tekur þátt í NM og EM sumarið 2019.

Maciej Baginski var á síðustu leiktíð sem og yfirstandandi tímabili einn af burðarásum Njarðvíkurliðsins. Að svo stöddu er hann með 13,5 stig, 3,2 fráköst og 2,5 stoðsendingar að meðtaltli í leik. Maciej var valinn í A-landslið Íslands sem tók þátt á Smáþjóðaleikunum 2018 en hann á alls 5 A-landsleiki að baki sem og fjöldan allan af landsleikjum með yngri landsliðum Íslands.

Stjórn Körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur óskar Vilborgu og Maciej innilega til hamingju með að vera valin körfuknattleikskona og körfuknattleiksmaður Njarðvíkur 2018.