Yngri flokkarnir á ferð og flugiPrenta

Fótbolti

Það hefur verið nóg um að vera í sumar hjá yngri flokkum knattspyrnudeildar Njarðvíkur og höfum við farið á öll stærstu sumarmótin, ásamt auðvitað að vera á fullu í Íslandsmótinu.

Krakkarnir okkar í 8. flokknum hafa farið á nokkur skemmtileg dagsmót í sumar eins og Cheerios mótið, vor mót Þróttar og Norðurálsmót 8.flokks á Akranesi og hafa þau staðið sig virkilega vel.

7. flokkur drengja fóru á Norðurálsmótið á Akranesi en strákarnir okkar stóðu sig mjög vel og skemmtu sér konunglega.

6. flokkur drengja fóru á Orkumótið í Vestmannaeyjum og Set mótið á Selfossi og voru UMFN til mikils sóma.   5. flokkur drengja stóðu sig frábærlega á N1 mótinu á Akureyri og tryggðu sér 5. sæti í A styrkleika sem er besti árangur liðs frá Njarðvík á N1 mótinu í sögunni!

Stelpurnar okkar í 5, 6. og 7. flokki kepptu í júlí á Símamótinu í Kópavogi og stóðu sig virkilega vel og komu heim með tvo bikara. Þá fóru 5. flokks stelpurnar einnig á TM mótið í Vestmannaeyjum í byrjun júní og stóðu sig frábærlega en þær náðu besta árangri sem lið frá Njarðvík hefur náð á þessu móti.  

Í lok júlí kepptu svo stelpurnar og strákarnir okkar í 3. og 4. flokki á Rey Cup sem er alþjóðlegt knattspyrnumót sem fer fram í Laugardalnum í Reykjavík ár hvert. Njarðvík sendi sjö lið til þátttöku á Rey Cup og hefur aldrei sent svo mörg lið til leiks og voru aðeins fjögur félög með fleiri lið á mótinu. Strákarnir í 4. flokki spiluðu tvo úrslitaleiki í B og C úrslitum sem töpuðust því miður en þeir geta borið höfuðið hátt eftir flotta frammistöðu á mótinu.

3. flokks strákarnir náðu svo þeim frábæra árangri að komast alla leið í undanúrslit í A liða keppninni og enduðu í 4. sæti sem er besti árangur liðs frá Njarðvík á Rey Cup í sögunni og sannarlega frábær árangur. Strákarnir í B liðinu í 3. flokki stóðu sig einnig virkilega vel en þeir lentu í 3. sæti í C úrslitum eftir öruggan 3-0 sigur á móti Þrótti R. í leik um 3. sætið.  

Strákarnir okkar í 2. flokki fóru í frábæra æfingaferð til Spánar í júní og hafa svo í framhaldinu verið að standa sig vel á Íslandsmótinu og komust m.a. upp um riðil eftir nokkur mjög góð úrslit.  

Að lokum verður svo að minnast á frábæran árangur 3. flokks drengja sem komust í 8 liða úrslit bikarkeppni KSÍ fyrr í sumar þar sem þeir þurftu að lokum að sætta sig við tap í vítaspyrnukeppni gegn Víkingi Reykjavík.

Það er ljóst að yngri flokkar knattspyrnudeildar Njarðvíkur halda áfram að stækka og dafna og virkilega jákvætt að sjá að við erum að bæta árangur okkar á hverju mótinu á fætur öðru!
Yngri flokkarnir eru núna í stuttu sumarfríi fram yfir verslunarmannahelgi og þá klárum við sumarið með stæl en það verður nóg um að vera í ágúst og fullt af mótum. Knattspyrnudeild Njarðvíkur óskar öllum góðrar verslunarmannahelgar og sjáumst hress og kát eftir helgi.

Áfram Njarðvík!